Tvær sunnlenskar í úrslitum

Sunnlensku hljómsveitirnar My Final Warning frá Selfossi og The Wicked Strangers frá Eyrarbakka eru komnar í úrslit Músiktilrauna 2011 sem fara fram á morgun, laugardag.

Dómnefnd Músiktilrauna valdi My Final Warning áfram á fjórða og síðasta undankvöldinu en The Wicked Strangers er ein þriggja hljómsveita sem dómnefndin valdi aukalega áfram að loknum öllum undankvöldunum.

Hljómsveitina My Final Warning skipa fjórir 16 ára piltar, þeir Tómas Smári Guðmundsson, gítar/söngur, Markús Harðarson, gítar, Bergsteinn Sigurðarson, trommur og Hlynur Daði Rúnarsson, bassaleikari.

Hljómsveitin hóf feril sinn árið 2008 sem coverband en að undanförnu hafa þeir fært sig yfir í sitt eigið efni og spilað rokktónlist sem innblásin er úr öllum áttum.

The Wicked Strangers er aðeins búin að vera starfandi í örfáa mánuði en hana skipa Teitur Magnússon, gítar/hljómborð, Einar Th. Skúlason, gítar/raddir, Þorsteinn Ólason, bassi/raddir, Jósep Helgason, trommur og Gunnar Guðni Harðarson, söngur. Hljómsveitin spilar “stanslaust þróunarrokk” svo vitnað sé í þá sjálfa.

Úrslitakvöldið, sem í raun er síðdegi, verður haldið í Íslensku Óperunni og hefst kl. 16 á laugardag. Herlegheitunum verður útvarpað beint á Rás 2.