Trúbadorar keppa á 800Bar

800Bar á Selfossi mun standa fyrir þriggja kvölda trúbadorakeppni sem hefst þann 17. mars nk.

Eiður Birgisson, veitingamaður á 800Bar, segir að um árlega keppni verði að ræða. „Þetta er fyrir hressu gaurana með gítarinn í partíunum og alla þá sem geta haldið uppi stuði. Það er sama hvort um er að ræða trúbadora eða dúetta og hljóðfæraval er undir hverjum og einum komið,“ segir Eiður í samtali við sunnlenska.is.

Keppniskvöldin eru fimmtudagskvöldin 17. mars, 24. mars og 7. apríl. Hvert atriði er átta mínútna langt og hafa keppendur frjálsar hendur um hvernig þeir gera sem mest úr sínum tíma.

„Það er hægt að setja atriðið upp sem syrpu eða stök lög og svo er alltaf vinsælt að taka hress frumsamin lög,“ segir Eiður. „Aðalatriðið er að heilla dómnefndina og salinn.“

Þrjú atriði komast áfram á fyrstu tveimur kvöldunum þannig að sex atriði keppa til úrslita þann 7. apríl.

Vegleg verðlaun eru í boði en sigurvegarinn fær stúdíótíma í Studio6 og inneign í Músík og myndum. Einnig fær sigurvegarinn gigg á 800Bar einu sinni í mánuði út árið.

Annað og þriðja sæti fá skráningu hjá Sónus, stærstu umboðsskrifstofu Suðurlands og verða þar í góðum höndum hins hressa Bessa.

Auk þess verða gefnar Carlsberg fötur, sem keppendur geta gefið vinum sínum í sal.

Skráning fer fram á 800bar@800bar.is eða á Facebook síðu 800Bars.

Fyrri grein„Vinnubrögðin ráðuneytinu til skammar“
Næsta greinAllt að fyllast hjá Hellismönnum