Tólfta Selfossþorrablótið framundan

Tólfta Selfossþorrablótið fer fram í íþróttahúsinu á Selfossi laugardaginn 26. janúar næstkomandi. Fjölbreytt skemmtiatriði og frábær matur eru að vanda í boði.

Á dagskránni eru, auk leyniatriðis, Selfossbragur Sigurgeirs, Karlakór Selfoss, Léttsveitin Rófustappa, Karítas Harpa sem sló svo rækilega í gegn á Hátíð í bæ, Hljómsveitin Dans á Rósum og fleiri.

Veislustjórar verða svo háðfuglar miklir, tenórsöngvarinn Stefán og bassinn Davíð og heiðursgestir að þessu sinni eru Ingunn Guðmundsdóttir, Bryndís Brynjólfsdóttir, Hafsteinn Már Matthíasson, Íris Bachmann, Skarphéðinn Sveinsson og Elín Arnoldsdóttir.

Veitt verður árleg menningarviðurkenning Selfossþorrablótsins og veisluföngin verða líkt og undanfarin þrjú ár af Eldhúsi sælkerans.

Forsala hefst í dag á Rakarastofu Björns og Kjartans í Miðgarði en sunnudaginn 6. janúar verður sérstakt forsölutilboð með gildum afslætti í Miðgarði frá klukkan 17-19.

Burtfluttar dætur og synir Selfoss eru sérstaklega boðin velkomin að skemmta sér með heimamönnum.

Fyrri greinHrunamenn gengnir til liðs við BÁ
Næsta greinNýtt lag og myndband frá RetRoBot