The Young and Carefree komnir í úrslit

Rafpoppsveitin The Young and Carefree frá Stokkseyri er komin í úrslit Músiktilrauna sem fram fara á laugardagskvöld í Austurbæ.

The Young and Carefree er önnur af tveimur hljómsveitum sem dómnefndin bætti inn á úrslitakvöldið að loknum öllum undankvöldunum.

Hljómsveitina skipa þeir Fjölnir Þorri Magnússon, hljómborð og Jón Kristján Jónsson, hljómborð/kassagítar og þegar þeir spila “live” hafa þeir DJ-inn Gunnar Dreka Hauksson sér til fulltingis.

Það verða því þrjár sunnlenskar hljómsveitir á sviðinu í Austurbæ á laugardagskvöld; Glundroði og RetRoBot frá Selfossi og Stokkseyringarnir í The Young and Carefree.

Úrslitakvöldið hefst kl. 17:00 og mun Rás 2 útvarpa beint frá kvöldinu svo að landsmenn allir fá tækifæri á að fylgjast með og jafnframt að kjósa í beinni símakosningu um hljómsveit fólksins.

Hægt er að hlusta á spilara með þessum böndum, nálgast upplýsingar um þau og skoða fyrri keppnir á www.musiktilraunir.is. Miðasala er í fullum gangi á midi.is og í miðasölu Austurbæjar.