Tannhjól sem rúllar vel

Hljómsveitin Mánar frá Selfossi hefur gefið út nýja hljómplötu sem ber nafnið „Nú er öldin önnur“. Nú eru 45 ár síðan Mánar gáfu síðast út efni plötu.

Þeir sem þekkja til hljómsveitarinnar og meðlima hennar vita að hér eru reyndir menn á ferð. Raunar er platan gefin út í tilefni hálfrar aldrar afmælis sveiarinnar, sem var í fyrra.

„Við ætluðum að koma henni út í fyrra en ég var talsvert upptekinn við að flytja heimili mitt og koma stúdíóinu upp á nýjum stað, þannig að þetta dróst,“ segir Ólafur Þórarinsson, betur þekktur sem Labbi, gítarleikari sveitarinnar.

Labbi segir diskinn hafa verið í bígerð nokkuð lengi og að setja saman nýja plötu sé talsvert mál. „Við sömdum þarna nýtt efni og þótt við séum allir að fást eitthvað við músík þá þarf að æfa og fara yfir hlutina,“ segir Labbi um vinnuna við diskinn.

Hann segir þó mikið muna um hversu tengdir þér séu hver öðrum tónlistarlega, allt frá fyrri árum. „Það lifir enn, þetta er tannhjól sem rúllar vel og það kemur eitthvað visst „element“ upp þegar við byrjum að spila,“ segir Labbi.

Hann segir þá félagana ekki vera að breyta mikið útfrá eldra efninu á nýju plötunni. „Við erum ekkert að reyna að poppa upp okkar spilamennsku, við gerum þetta eins og okkur sýnist og tónlistin fer í þann farveg sem hún hefur jafnan leitað þegar við byrjum að spila. Þannig er þessi plata byggð upp,“ segir hann. Ekki sé verið að hlaupa eftir neinu nýju, eða vera að reyna að gera þetta gamaldags.

Ian Anderson gestaleikari
Hvaða lagasmíðarnar snertir, segir Labbi að bæði sé glænýtt efni og svo annað tekið upp úr mis-rykföllnum skúffum. Og viðbrögðin við nýju plötunni eru fín að hans sögn. „Já, við erum ánægðir. Við kynntum fyrst efnið á netinu og þar fer mest af sölunni fram, en nú er platan komin í flestar búðir. Móttökurnar hjá þeim sem hafa hlustað og látið okkur vita eru frábærar og við erum ofurkátir,“ bætir Labbi við.

Meðal laga á plötunni er Lækurinn, eftir Smára Kristjánsson, bassaleikara sveitarinnar, en í því lagi leikur hinn syngjandi flautuleikari hljómasveitarinnar Jethro Tull, Ian Anderson á flautuna sína. Það kom þannig til að Unnur Birna, söngkona, sem er dóttir Björns (Bassa) Ólafssonar, hljómborðsleikara, hefur sungið all mikið með Anderson á hans tónleikaröð um heiminn og orðin þekkt í aðdáendahóp hans. „Við ákváðum að heyra í kappanum og hann tók þessu mjög vel og gekk í málið.“

Hægt að kaupa vínyl
Nú er öldin önnur, er upphafslag plötunnar og þar er að heyra áframhald sögunnar af Villa verkamanni, sem kom til sögunnar á fyrstu plötu sveitarinnar. Nafnið á laginu gefur vissulega til kynna að nú séu aðrir tíma en fyrir 45 árum, en samt er margt svo líkt. Nema kannski höfuðpersónurnar, hljómsveitarmennirnir. „Við erum unglingar á þeirri fyrri en svo að megninu til orðnir löggiltir eldri borgarar þegar seinni platan kemur út,“ segir Labbi.

Æ algengara er nú að gefa nýtt efni út á vínylplötum auk geisladiska. Ný Mánaplata er vissulega dæmi um slíkt en hægt er að panta vínylinn sérstaklega á fésbókarsíðu Mána og þar er auðvitað hægt að kaupa diskinn líka.