Systurnar stálu senunni

Systurnar Margrét Harpa og Þuríður Marín Jónsdætur frá Syðri-Hömrum í Ásahreppi sigruðu í söngkeppni Nemendafélags FSu sem fram fór í Iðu í kvöld.

Það var mikil spenna þegar Gústaf Lilliendahl, formaður dómnefndar, las upp úrslitin í hrikalega jafnri og glæsilegri keppni. Systurnar fluttu lagið Take Me or Leave Me úr söngleiknum Rent af miklu öryggi og skákuðu þar með fjórtán öðrum atriðum sem flutt voru á sviðinu í Iðu.

Það er óhætt að segja að Rangæingar hafi verið fremstir í flokki í keppninni því að í 2. sæti varð Írena Víglundsdóttir frá Hellu sem flutti lag 4 Non Blondes, What’s up og þriðji varð Albert Rútsson frá Skíðbakka en hann söng One Republic lagið Secrets.

Selfyssingurinn Guðrún Bína Gunnarsdóttir var „val hljómsveitarinnar“ en hún flutti Pókemonlagið við frábærar undirtektir. Það sama má segja um Hvergerðingana Bjarka Friðgeirsson og Ívar Örn Guðjónsson sem fengu verðlaun fyrir bestu sviðsframkomuna í laginu Við elskum þessar mellur.

Fullt hús var í Iðu, um 700 manns, og urðu gestir vitni að frábærri skemmtun. Þema keppninnar í ár var „Stayin’ alive – Diskó hinna dauðu“.

Fyrri greinÁrsæll á Stóra-Hálsi og Þjórsárskóli fengu verðlaun
Næsta greinNýjasti kórinn syngur í kvöld