Sumar og soul á Örkinni í kvöld

Vorfagnaður Hljómlistarfélags Hvergerðis verður haldinn í Hótel Örk í Hveragerði í kvöld og hefst gleðin kl. 21.

Þetta er einn af árlegum viðburðum félagsins. Þar verður háð keppni í söng á milli fyrirtækja á svæðinu og á eftir verður stórdansleikur að hætti Hljómlistarfélagsins.

Sérstakur gestur þetta kvöld verður Jens Hansson, saxafónleikari Sálarinnar hans Jóns mín. Gestur sá passar einkar vel við þema kvöldsins sem er sumar og soul. „Hann mætir með sinn eigin lúður og blæs í hann eins og enginn sé veturinn,“ sagði Páll Sveinsson, einn af formönnum félagsins.

Kynnir kvöldsins er útvarpsmaður og viðburðaskipuleggjandinn Bergsveinn „Bessi” Theodórsson.

Hægt er að nálgast miða á vorfagnað þennan í Tíunni og Shell, Hveragerði.

Fyrri greinRæða við Guðmund um þriðja bindið
Næsta greinTýndi umslagi með seðlabúnti