„Stattu upp“ komst áfram

Lagið „Stattu upp“ eftir Ingólf Þórarinsson og Axel Flex Árnason komst áfram á fyrsta undankvöldi Söngvakeppni Sjónvarpsins í kvöld.

Lagið er hreinræktað Europopplag, flutt af strákabandinu Blár Ópal. Það var annað af tveimur lögum sem komst áfram á úrslitakvöldið sem fram fer þann 11. febrúar. Hitt lagið sem komst áfram í kvöld er Mundu eftir mér eftir Gretu Salóme Þorkelsdóttur. Þar er Selfyssingurinn Pétur Örn Guðmundsson á meðal bakradda.

Þetta er í annað sinn sem Ingó tekur þátt í Söngvakeppni Sjónvarpsins, en þó í fyrsta sinn sem lagahöfundur. Árið 2009 söng hann lag Hallgríms Óskarssonar, Undir regnbogann, og varð í öðru sæti á eftir Jóhönnu Guðrúnu.