Stærsta smellinn má bara spila á aðventunni

Hljómsveitin OFL frá Selfossi hefur endurútgefið smáskífuna „Sjálfur“ á helstu efnisveitum heims, í tilefni af tuttugu ára afmæli hljómsveitarinnar sem er á þessu ári.

Smáskífan var gefin út fyrir jólin 1999 en hún seldist strax upp og hefur verið ófáanleg síðan. Aðdáendur hljómsveitarinnar geta nú glaðst á nýjan leik því skífan er nú meðal annars komin á Spotify, Tidal, iTunes og Google Play.

„Okkur langaði að gera eitthvað skemmtilegt í tilefni af tuttugu ára afmæli hljómsveitarinnar. Það hefur verið töluverð eftirspurn eftir þessum lögum, sérstaklega jólalaginu, sem var mjög vinsælt á sínum tíma,“ segir Guðmundur Karl Sigurdórsson, söngvari hljómsveitarinnar. Ásamt honum voru í hljómsveitinni þeir Leifur Viðarsson, Helgi Valur Ásgeirsson, Baldvin Árnason og Halli í OFL.

Vona að útgefandinn hafi komið út á sléttu
„Það eru þrjú lög á plötunni. Titillagið Sjálfur og 2000 útgáfan af Veiðistöng en Veiðistöng fékk mikla spilun á Útvarpi Suðurlands á sínum tíma. Svo er Takk fyrir jólin Jesú þarna líka, en það er okkar lang vinsælasta lag og var til dæmis mest spilaða lagið á FM957 í desember árið 1998. Það er algjör synd að okkar stærsta smell megi bara spila á aðventunni,“ segir Guðmundur og hlær.

„Þetta var mikið ævintýri að koma skífunni út á sínum tíma. Maggi Ninni hjá J&J Records gaf plötuna út og var í raun aðal hvatamaðurinn að því að hún leit dagsins ljós. Ég vona að hann hafi að minnsta kosti náð að koma út á sléttu, en upplagið kláraðist fljótt og vel.“

Komu síðast saman í góðærinu 2007
Aðspurður segir Guðmundur að það sé ólíklegt að OFL muni koma saman á næstunni, þó hann vilji ekki viðurkenna að hljómsveitin sé hætt. „Listrænn ágreiningur varð til þess að bandið liðaðist í sundur uppúr aldamótunum. Við komum síðast saman í upprunalegri mynd í góðærinu árið 2007. Við höfum spilað nokkrum sinnum eftir það, en þá hefur alltaf vantað einn eða tvo af upprunalegu meðlimunum. En við skulum ekki útiloka neitt. Það væri gaman að koma bandinu saman aftur en þangað til verða aðdáendur okkar bara að láta það duga að hlusta á okkur á Spotify,“ segir Guðmundur að lokum.

Fyrri greinFerðamenn í vanda á Sólheimasandi
Næsta greinÍstak bauð lægst í Eldvatnsbrúna