Söngvarakeppnin hefst á fimmtudag

Nk. fimmtudagskvöld, 7. október, hefst Suðurlandsins eina von, söngvarakeppni ungs fólks á framhaldsskólaaldri í Hvítahúsinu á Selfossi.

Keppnin saman stendur af þremur kvöldum, fyrsta kvöldið 7. október, undanúrslit 21. okt og svo úrslit 4. nóvember. Fyrsta kvöldið syngja níu keppendur og eftir kvöldið detta þrír keppendur út. Næsta kvöld keppa því sex keppendur og svo þrír keppendur seinasta kvöldið.

„Þetta er í þriðja sinn sem keppnin er haldin og hefur hún stækkað ár frá ári. Því ætlum við að gefa allt í keppnina að þessu sinni og gera hana glæsilegri en áður. Það hefur verið húsfyllir frá upphafi og ekki síst mikill stígandi í hæfileikum keppenda og kæmi mér ekki á óvart að það fólk sem við sjáum á sviðinu muni færa sig yfir á stærra svið í framtíðinni,“ segir Einar Björnsson, framkvæmdastjóri keppninnar í samtali við sunnlenska.is.

Áhorfendur í sal kjósa um hver heldur áfram og einnig verður dómnefnd til að vega á móti atkvæðum úr sal. Eftir keppnina verður svo dansleikur með vel völdum tónlistarmönnum og plötusnúðum sem munu halda uppi stuðinu eins lengi og lög leyfa.

Keppninni verður útvarpað beint á Suðurland FM 96,3 og á netinu www.963.is og hefst keppnin kl. 22.

Fyrri greinInnbrotið á Geysi óupplýst
Næsta grein412 milljóna niðurskurður á sjúkrasviði