Sögustund með sunnlenskum poppskáldum í kvöld

„Saga til næsta bæjar“ er nafn á tónleikum, sem haldnir verða í Tryggvaskála á Selfossi í kvöld, sunnudagskvöld, í tilefni af menningarmánuðinum október í Sveitarfélaginu Árborg.

Á tónleikunum ætla Einar Bárðarson, Hreimur Örn Heimisson, Ingólfur Þórarinsson og Heimir Eyvindarson að koma fram og taka nokkur af sínum bestu lögum og segja sögurnar á bak við þau.

Hreimur Örn Heimisson sló í gegn í hljómsveitinni Land og synir þegar lagið Vöðvastæltur tröllreið öllu árið 1997. Seinna fylgdu ódauðlegir hittarar eins og Dreymir, Lífið er yndislegt og svo mætti lengi telja.

Heimir Eyvindarsson er hljómborðsleikari og aðal driffjöður hljómsveitarinnar Á móti Sól. Lög Heimis með hljómsveitinni þekkja flestir. Ódauðlegir slagarar eins og Uppá þig, Flottur, Hvar sem ég fer, Árin og fleiri og fleiri.

Ingólfur Þórarinsson eða Ingó Veðurguð sló í gegn í Idol stjörnuleit árið 2006 og hélt svo áfram að vinna hug og hjörtu landsmanna með lögum eins og Bahama, Argentína, Drífa og Gestalistinn og þá er fátt eitt talið.

Ólíkt þeim félögum hefur Einar Bárðarson lítið komið fram sjálfur en hann hefur samið nokkur af vinsælustu lögum Skítamórals og Á móti sól. Einnig má nefna Eurovision lagið Birta, Ég sé þig og fleiri ódauðlega smelli.

Hægt er tryggja sér miða í Tryggvaskála í síma 4821390. Saga til næsta bæjar á Facebook

Fyrri greinStyttan af Páli komin á nýjan stað
Næsta greinBlómleg viðskipti í 10 ár