Skemmtilegasta atriðið á Samfés söngkeppninni

Strákarnir í hljómsveitinni Hámenning úr félagsmiðstöðinni Zelsius á Selfossi fengu sérstök verðlaun fyrir skemmtilegasta atriðið á Samfés söngkeppninni sem fór fram í Laugardalshöll um síðustu helgi.

Félagsmiðstöðvar af öllu landinu kepptu en um fimm þúsund ungmenni voru í salnum og fylgdust með keppninni, auk þess sem hún var í beinni útsendingu í Ríkissjónvarpinu.

Hámenning tók lagið Lög og regla með Bubba Morthens og voru um leið með mjög skemmtilegt dansatriði.

Á myndinni er hljómsveitinn ásamt kynnum keppninnar en strákarnir fjórir heita, talið frá vinstri, Hlynur Héðinsson á bassa, Arnór Bjarki Eyþórsson á rafmagnsgítar, Pétur Már Sigurðsson, söngvari og Veigar Atli Magnússon á trommum.

Hljómsveitin fékk fjölmörg gjafabréf í verðlaun.

Fyrri greinÞór mætir Haukum í úrslitakeppninni
Næsta greinAbba í Sleipnishöllinni