Sigurður Anton sigraði í Blítt og létt

Sigurður Anton Pétursson frá Hvolsvelli sigraði í árlegri söngkeppni Menntaskólans að Laugarvatni, „Blítt og létt“, sem haldin var á dögunum.

Sigurður Anton söng hið sígilda lag Feeling Good eftir þá Anthony Newley and Leslie Bricusse, sem bæði Nina Simone og Michael Bublé hafa gert vinsælt. Sigurður keppir síðan fyrir hönd ML í Söngkeppni framhaldsskólanna á vordögum.

Í öðru sæti varð hópurinn Bjarnveig og Stelpurnar (Bjarnveig Björk Birkisdóttir, Írena Írena Stefánsdóttir, Anna Elísabet Stark og Sunneva Sól Árnadóttir) sem renndu sér í gegnum Ettu James lagið Tough Lover.

Í þriðja sæti varð síðan sönghópurinn Hvolpasveitin með Ljósbrá Loftsdóttur í fararbroddi (þessa sveit skipuðu, auk Ljósbrár: Sölvi, Egill, Breki, Sigurður, Halldór, Ástráður og Hörður) með flutningi sínum á Guns n’ Roses laginu Sweet Child o‘ Mine.

Skemmtilegasta atriðið var einnig valið. Það hnoss hreppti dúettinn The Reid Brothers (bræðurnir Guðjón Andri og Ólafur Bjarni Jóhannssynir). Þeir slógu í gegn með Neil Diamond laginu I‘m a Believer sem The Monkees gerðu vinsælt á sínum tíma og hljómsveitin Smash Mouth tók svo upp á sína arma í upphafi þessarar aldar.

Sama dag og keppnin fór fram komu um 170 grunnskólanemar af Suðurlandi í heimsókn í ML, á árlegum kynningardegi skólans. Gestum dagsins var síðan boðið á söngkeppnina og skemmtu allir sér vel, enda kvöldið glæsilegt.
Fyrri grein„Þetta fjaraði hratt út hjá okkur“
Næsta greinEndurminningabók séra Sváfnis