Rokkuð byrjun á bæjarhátíð

Vel á þriðja hundrað gesta mættu á tónleikana SumarRokk á Selfossi sem haldnir voru í bæjargarðinum í kvöld við upphaf bæjarhátíðarinnar Sumar á Selfossi.

Sex hljómsveitir komu fram á tónleikunum, meðal annars pönkhljómsveitin Elín Helena, RetRobot sem sigruðu Músiktilraunir í ár og Kiriyama Family sem átt hefur vinsælasta lag landsins síðustu vikurnar.

Sumar á Selfossi nær hápunkti á laugardag með morgunverð í miðbænum og fjölskyldudagskrá sem lýkur um kvöldið með sléttusöng og flugeldasýningu áður en dansað verður inn í nóttina.

Selfyssingar há harða keppni sín á milli í hverfaskreytingum og er útlit fyrir sérstaklega góða þátttöku og veglegar skreytingar í ár en flestir byrjuðu að skreyta í dag.