RetRoBot spila á þremur tónleikum í Hollandi

Sunnlenska hljómsveitin RetRoBot hélt í dag til Hollands þar sem hljómsveitin mun koma fram á þremur tónleikum á næstu dögum á tónlistarhátíðinni Westernpop.

Þessi ferð er hluti af verðlaunum sem hljómsveitin fékk fyrir að vinna Músíktilraunir í vor.

Sunnlenska náði tali af Gunnlaugi Bjarnasyni, einum meðlima RetRoBot, í gær þegar hann hafði nýlokið við að pakka í tösku. „Það eru allir frekar spenntir,“ sagði Gunnlaugur en þetta er í fyrsta skipti sem hljómsveitin spilar erlendis. „Við spilum á sviði fyrir unga listamenn frá Evrópu.“

Hljómsveitin hefur komið fram á mörgum stöðum síðan hún sigraði keppnina góðu. „Það var gaman að spila á Þjóðhátíð, en ég held að bestu tónleikarnir okkar hafi verið á Kaffibarnum í apríl,“ sagði Gunnlaugur og bætti því við að það hafi verið í fyrsta skipti sem þeir komu fram utan Selfoss.

Sem fyrr segir fóru strákarnir utan í dag og verða í fimm daga. Gunnlaugur segir mögulegt að þeir muni spila á fleiri tónleikum erlendis á næstunni. „Já, kannski eitthvað. En ekkert sem ég vil uppljóstra núna.“

Fyrri greinElding sló út rafmagni
Næsta greinEngin busavígsla í FSu