RetRoBot sigraði Músiktilraunir 2012

Hljómsveitin RetRoBot frá Selfossi sigraði í Músiktilraunum 2012 en úrslitakvöldið fór fram í Austurbæ í Reykjavík í kvöld. Tíu sveitir kepptu til úrslita.

RetRoBot skipa þeir Daði Freyr Pétursson, Gunnlaugur Bjarnason, Guðmundur Einar Vilbergsson og Kristján Pálmi Ásmundsson. Hljómsveitin spilar elektrónískt indie-rokk.

Sveitin fékk fjölda glæsilegra verðlauna, m.a. tuttugu hljóðverstíma í Sundlauginni, þátttöku í hljóðverksmiðju Kraums tónlistarsjóðs og PR-námskeið hjá Gogoyoko auk þess sem sveitin mun spila á Iceland Airwaves í haust og á Westerpop tónlistarhátíðinni í Hollandi í ágúst.

Auk þess fengu liðsmenn sveitarinnar fyrsta styrkinn, 100.000 krónur, sem afhentur er úr nýstofnuðum minningarsjóði Péturs Poppara Kristjánssonar sem hefði orðið sextugur á árinu.

Daði Freyr, Abelton og synthaleikari RetRoBot, var valinn rafheili Músiktilrauna 2012 og fékk hann m.a. 30 þúsund króna úttekt í Tónastöðinni.

Þrjár sunnlenskar sveitir komust í úrslit Músiktilrauna en auk RetRoBot voru það Glundroði frá Selfossi og The Young and Carefree frá Stokkseyri.

Hér má sjá myndband með RetRoBot við lagið Electric Wizard

Fyrri greinÖruggt hjá Árborg – Ægir tapaði
Næsta greinHelgi skoraði eina markið