RetRoBot sigraði Músiktilraunir 2012

Hljómsveitin RetRoBot frá Selfossi sigraði í Músiktilraunum 2012 en úrslitakvöldið fór fram í Austurbæ í Reykjavík í kvöld. Tíu sveitir kepptu til úrslita.

RetRoBot skipa þeir Daði Freyr Pétursson, Gunnlaugur Bjarnason, Guðmundur Einar Vilbergsson og Kristján Pálmi Ásmundsson. Hljómsveitin spilar elektrónískt indie-rokk.

Sveitin fékk fjölda glæsilegra verðlauna, m.a. tuttugu hljóðverstíma í Sundlauginni, þátttöku í hljóðverksmiðju Kraums tónlistarsjóðs og PR-námskeið hjá Gogoyoko auk þess sem sveitin mun spila á Iceland Airwaves í haust og á Westerpop tónlistarhátíðinni í Hollandi í ágúst.

Auk þess fengu liðsmenn sveitarinnar fyrsta styrkinn, 100.000 krónur, sem afhentur er úr nýstofnuðum minningarsjóði Péturs Poppara Kristjánssonar sem hefði orðið sextugur á árinu.

Daði Freyr, Abelton og synthaleikari RetRoBot, var valinn rafheili Músiktilrauna 2012 og fékk hann m.a. 30 þúsund króna úttekt í Tónastöðinni.

Þrjár sunnlenskar sveitir komust í úrslit Músiktilrauna en auk RetRoBot voru það Glundroði frá Selfossi og The Young and Carefree frá Stokkseyri.

Hér má sjá myndband með RetRoBot við lagið Electric Wizard