Pullarinn og purusteikar-samlokan

Matur á útihátíðum eins og Roskilde Festival getur verið misjafn. Frá því sem selt er í hvíta matartjaldinu í Herjólfsdal um verslunarmannahelgina, til þess góðgætis sem íslenskir bændur bjóða á Kótelettunni.

Vignir Egill Vigfússon skrifar frá Hróarskeldu:

Eins og margir Selfyssingar, og í raun Sunnlendingar, ólst ég upp á því að fá óreglulega hamborgara með öllu úr Pylsuvagninum á Selfossi. Þennan nokkuð óvenjulega borgara er ekki víða að finna, með sínu rauðkáli, súrum gúrkum og fleiru sem fer aðeins út fyrir ramma hins venjulega ostborgara.

Einn er sá réttur sem óhætt er að fullyrða að sé vinsælli en aðrir á Roskilde Festival. Það er purusteikarsamlokan (d. flæskestegssandwich) unnin upp úr nýkjörnum þjóðarrétti Dana – menn hafa reyndar mismunandi skoðanir á kosningafærni þeirri, en það er annað mál og verður ekki rætt frekar hér. Samlokan, hinsvegar, er fyllt steiktu svínakjöti, sósum, rauðkáli, súrum gúrkum og fleiru. Hljómar kunnuglega.

Ég ætla hér með að kasta fram þeirri kenningu að þeir Danir sem hafa verið duglegir að sækja Selfoss heim undanfarna áratugi, þá sérstaklega Mjólkurbú Flóamanna, hafa kynnt verðandi skyndibitakónga á Selfossi fyrir þessum rétti. Þeir hafi svo útfært þetta enn lengra og hannað það sem við þekkjum og elskum í dag sem hamborgari með öllu í Pylsuvagninum.

Það myndi allavega útskýra af hverju undirritaður er alltaf mættur í röðina við samlokusölustaðinn um kvöldmatarleytið og líður næstum eins og hann sé kominn heim um stund. Ég ætla að fá mér aðra í kvöld.

Daglegir pistlar frá Roskilde Festival verða hér á síðunni næstu daga.
Fyrri greinNý músík í Bókakaffinu
Næsta greinSækja örmagna ferðamann