Pokaball hjónaklúbbsins á Þingborg

Pokaball Hjónaklúbbs Selfoss verður haldið á Þingborg á laugardagskvöld þar sem Jón Bjarnason mun sjá til þess að allir skemmti sér vel.

Mikil gróska er í starfi hjónaklúbbsins en pokaballið var endurvakið í fyrra og heppnaðist mjög vel. Eins og áður mæta menn með drykki sína í poka og er allt sambýlisfólk velkomið.

Þá styttist í hina árlegu Jónsmessugöngu en í fyrra gekk fjölmenni frá Golfskálanum við Svarfhólsvöll upp með Ölfusá að Laugardælavatni og síðan að Laugardælakirkju. Þar var staldrað við í góða stund og kirkjan skoðuð að innan sem utan og endað með léttum veitingum í golfskálanum. Eins og með Pokaballið þá heppnaðist gangan mjög vel og fór þátttaka langt fram úr björtustu vonum stjórnarmanna.

Ef sambýlisfólk hefur hug á að skrá sig í klúbbin er hægt að hafa samband við Elínborgu Gunnarsdóttur, formann, í síma 892-2353 eða senda tölvupóst á verktak@simnet.is. Auk þess er hægt að skrá sig á Facebooksíðu klúbbsins.

Fyrri greinRauði krossinn opnar stöðvar í Vík og á Klaustri
Næsta greinSprengivirkni í gosinu dvínar