Pikachuar dimmitera

Fólk ætti ekki að láta sér bregða verði það vart við tugi gulra Pikachua á ferðinni í dag. Þar eru útskriftarnemar í FSu á ferðinni í dimmisjón.

Hópurinn hittist snemma morguns og klæddi sig upp áður en haldið var í fjölbrautaskólann þar sem sungið var fyrir nemendur og kennara. Að því loknu var hópnum smalað upp í rútu í óvissuferð til Reykjavíkur.

Fyrir þá sem furða sig á þessum furðuverum má skýra frá því að Pikachu er eitt þekktasta vörumerki Pokémon teiknimyndaveldisins. Ekki er ólíklegt að stór hluti dimmitenda hafi alist upp við það ávanabindandi ævintýri.