Persónan er villt og furðuleg

Ný íslensk kvikmynd, Webcam, var frumsýnd á dögunum. Tveir Þorlákshafnarbúar fara með hlutverk í myndinni.

Myndin segir frá framhaldsskólastelpunni Rósulind sem lifir afar frjálslegu lífi sem snýst að mestu leyti um djamm, stráka og að hanga með bestu vinkonunni Agú. Allt það breytist þó þegar Rósalind finnur köllun sína í því að fækka fötum á netinu. Smátt og smátt fer líf hennar að snúast um starfið og hefur það áhrif á sambönd hennar, vináttu og fjölskyldulíf.

Þau Júlí Heiðar Halldórsson og Jana Ármannsdóttir frá Þorlákshöfn fara bæði með hlutverk í myndinni.

Jana segir að leiklistaráhuginn hafi kviknað strax í æsku og að hún hafi alltaf haft gaman að því að standa á sviði og leika. Þegar verið var að velja í hlutverk fyrir leikrit í Grunnskólanum í Þorlákshöfn var Jana með hendurnar hæst á lofti. Hún segir að það hafi ekki endilega verið draumur að leika í kvikmyndum. „Mér finnst leikhús aðeins meira heillandi en þar getur allt gerst og töfrar leikhúsins heilla einnig. En toppurinn væri að leika í Soho í London og þá einna helst í yndislegu „klisjunni,“ sem eru söngleikirnir.“

Hvernig kom það til að Jana fékk hlutverk í kvikmyndinni Webcam?

Jana segir að hún hafi unnið með Sigurði Antoni Friðjónssyni í stuttmynd sem sýnd verður seinna á þessu ári. „Honum leist vel á mig þar og fékk mig í prufur og það gekk svona glimrandi vel og ég fékk hlutverkið.“

Persóna Jönu í myndinni heitir Jórunn en hún segir að þær eigi ekki margt sameiginlegt. „Hún er svo sem ekki lengi á tjaldinu en þeir vildu hafa hana svolítið furðulega og villta og það virkaði og kemur vel út. Ég vil heldur ekki vera lík persónunni sem ég leik heldur frekar að leita að hlutum sem eru ólíkir mér og bæta þá. Þegar ég leik þá er ég ekki ég heldur einhver allt annar,“ segir Jana sem er að fara í fornleifafræði í Háskóla Íslands í haust með sagnfræði sem aukagrein í haust.

Fyrri greinBestu brownies í bænum
Næsta greinFyrsti áfangi hafnarframkvæmda að hefjast