Partýið sem þig hefur dreymt um

Skemmtistaðurinn 800Bar stendur fyrir viðburði í Hólmarastarhúsinu á Stokkseyri á laugardagskvöldið í samvinnu við agent.is og Jagermeister.

„Við köllum þetta „800Bar á hjólum“, ef þetta kvöld heppnast vel þá má reikna með mánaðarlegum viðburðum þarna,“ segir Eiður Birgisson, á 800Bar sem stendur fyrir Project X kvöldi á Draugabarnum í Hólmarastarhúsinu á Stokkseyri á laugardagskvöld. „Við leigjum þarna tvo af þremur sölum Draugabarsins þannig að það verður nóg pláss fyrir þá sem vilja dansa og skemmta sér,“ segir Eiður.

Allir þeir sem hafa séð kvikmyndina Project X hafa líklega hugsað „Vá hvað ég væri til í svona partý!“. Agent.is og Jagermeister héldu svona partý á dögunum í Reykjavík þar sem mættu 800 manns og nú er röðin komin að Stokkseyri.

Meðal þess sem boðið verður uppá er bjór-pong, bjór-bong, dvergur, hoppukastali og blautbolakeppni. Auk þess verða góð tilboð á barnum og þegar lagið Pursuit of Happiness er spilað eru frí skot hjá DJ’um kvöldsins, þeim Óla Geir og Pink&Purple.

Áttahundruð Bar varð eldi að bráð í mars sl. og segir Eiður að síðan þá hafi Selfyssingar skemmt sér meira í Reykjavík. „Við erum að reyna að halda okkar fólki á heimavelli og vonandi verður framhald á þessu. Hvað staðinn á Selfossi varðar þá eru þau mál enn í skoðun og lítið hægt að segja um það núna hvenær hann opnar aftur,“ segir Eiður.

Hægt er að vinna miða á viðburðinn á Facebook síðu hans.

Fyrri greinSundhöll Selfoss lokuð vegna viðhalds
Næsta greinBuðu Blikum í markasúpu