„Pabbi lagaði kjólinn”

„Þetta var alveg æðislegt kvöld, miklu skemmtilegra en ég átti von á og þetta leið allt of hratt,” sagði Ungfrú Suðurland 2011, Helga Rún Garðarsdóttir, eftir krýninguna í kvöld.

„Ég var ekkert stressuð í kvöld, ég var stressuð á generalprufunni í gær en í dag var ég bara stressuð yfir ritgerðinni sem ég á að skila í skólanum á morgun. Nú er keppnin búin og þá get ég einbeitt mér að skólanum,” segir Helga Rún sem er að ljúka stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík í vor.

Stelpurnar komu níu sinnum fram í kvöld í tískusýningum frá fjölda verslana, m.a. í undirfötum og bikiníi og Helga segir að það hafi verið lítið mál að stíga á svið fyrir framan 300 öskrandi áhorfendur.

„Maður dettur í einhvern karakter og þá er þetta komið. Þetta er bara „show” og kvöldið var alveg ótrúlega skemmtilegt.”

Helga Rún mun taka þátt í Ungfrú Ísland þann 20. maí ásamt Hildi Rós og Guðrúnu Birnu. Henni lýst vel á komandi vikur. „Ég verð að skipuleggja mig vel, ég er að detta í stúdentsprófin þannig að það verður ekkert rugl. Gummi bróðir sagði við mig að meðaleinkunnin mín myndi lækka um tvo heila við að taka þátt í þessari keppni en ég tók þetta bara á þrjóskunni og ætlaði ekki að láta það gerast. Þetta hefur ekki bitnað á skólanum ennþá en við sjáum til hvernig prófin fara,” sagði Helga brosandi.

„Undirbúningurinn fyrir keppnina var mjög skemmtilegur og ég er ekki frá því að ég hugsi aðeins öðruvísi eftir þetta. Ég er að minnsta kosti búin að kynnast sjálfri mér betur. Það er búið að vera geðveikt mikið að gera í ræktinni og skólanum og maður þarf aga til að fara í gegnum þetta.”

Helga Rún geislaði í öllum innkomum í keppninni í kvöld og bar af í kjólaatriðinu sem jafnan er hápunktur keppninnar. „Ég keypti kjólinn í brjáluðu stressi á netinu. Pabbi lagaði kjólinn og stytti og við vorum bæði mjög ánægð með útkomuna,” segir Helga sem var vel studd af fjölskyldu sinni í salnum í kvöld.

„Ég er ótrúlega ánægð með þetta. Nú ætla ég bara að slaka á og njóta kvöldsins og svo tekur 1500 orða sálfræðiritgerð við á morgun.”