Ómar Diðriks og Sveitasynir gefa út geisladiskinn „Lifandi“

„Lifandi“ er annar diskur Ómars Diðriks og Sveitasona, sem tekinn er upp „live“ á Selfossi. Um er að ræða sunnlenska hljómsveit sem spilar frumsamda kántrýskotna og hljómbæra tónlist.

Textar eru á íslensku að undanskyldum einum sem er á ensku. „Hljómurinn á þessum diski er skemmtilega lifandi og textarnir fjölbreyttir, eitthvað bæði fyrir hjartað, sálina og dansskóna,“ segir Ómar en öll lögin á disknum eru eftir Ómar sjálfan, sem einnig syngur og spilar á gítar.

Rúnar Þór Guðmundsson spilar á gítar og banjó og sér um raddir, auk þess sem hann stjórnar upptökum. Guðmundur Eiríksson spilar á hljómborð og píanó en hann hefur einnig útsett tvö af lögunum fyrir kór en það er Kirkjukór Odda og Þykkvabæjar sem syngur með í þeim lögum. Þórir Ólafsson spilar á bassa og raddar. Karl Þorvaldsson tók upp diskinn, auk þess sem hann spilar á slagverk, hljóðblandar og hljóðjafnar.

Tvær sunnlenskar söngkonur ljá verkefninu raddir sínar en það eru þær Gunnhildur Þórðardóttir og Kristrún Steingrímsdóttir. Einnig syngur söng- og leikkonan Bryndís Ásmundsdóttir í einu lagi. Sunnlendingurinn Karl Hallgrímsson spilar á mandólín og munnhörpu og Karl Hákon Karlsson á rafgítar í einu lagi.

Fyrri greinJóhannes skrifar gamansögur úr Árnesþingi
Næsta greinAðgerðaráætlun á HSu vegna ebólu