Ölvisholt Brugghús kom, sá og sigraði

Bjórhátíðin á Hólum í Hjaltadal var haldinn í þriðja skiptið síðastliðinn laugardag. Þar mættu allir bjórframleiðendur landsins ásamt einum innflytjanda og buðu hátíðargestum til smökkunar.

Var vel mætt á hátíðina eða um eitthundrað manns en framleiðendurnir sem mættu auk Ölvisholts Brugghúss í Flóahreppi voru Bruggsmiðjan Kaldi, Steðji, Vífilfell, Gæðingur, Ölgerðin/Borg Brugghús og svo auðvitað heimamennirnir; Hólamenn með Bjórsetur Íslands – Brugghús. Einnig var Elgur ehf á staðnum og kynnti innflutta bjóra, m.a. frá Belgíu og Þýskalandi.

Hátíðargestir fengu að smakka á tæplega fimmtíu tegundum af bjór af hinum ýmsu gerðum. Með bjórnum var boðið upp á þýskar grillpylsur og hægeldað rifið svínakjöt og að auki saltkringur frá Bakarínu við Brúna á Akureyri. Einnig var keppt í kútaralli og blásið til happdrættis með veglegum verðlaunum.

Að venju voru þrír bestu bjórar hátíðarinnar kosnir af hátíðargestum og þar varð Vatnajökull frá Ölvisholti hlutskarpastur, en hann er bruggaður úr ísjökum sem teknir eru úr Jökulsárlóni, kryddaður með blóðbergi og fæst einungis á veitingastöðum í nágrenni Vatnajökuls.

Að sögn hátíðarhaldara heppnaðist hátíðin afar vel og fóru hátíðargestir með ánægjusvip frá Hólum.

Fyrri grein„I nearly died and I'm not joking!“
Næsta greinFrábærar niðurstöður í ytra mati skólans