Nýtt lag og myndband frá RetRoBot

Sunnlenska hljómsveitin RetRoBot sendi frá sér nýtt lag og myndband við það á nýársdag. Lagið nefnist Insomnia.

„Við tókum lagið upp í stúdíóinu Sundlauginni og nýttum þar verðlaun okkar í Músiktilraunum sem var meðal annars einn dagur í þessu stúdíói. Biggi í Sundlauginni sá um upptökustjórn og Pétur Ben var með okkur þarna til að hjálpa til,“ sagði Gunnlaugur Bjarnason, söngvari sveitarinnar í samtali við sunnlenska.is.

Lag og texti er eftir Daða Frey Pétursson, rafheila hljómsveitarinnar, en Gunnlaugur segir að allir hljómsveitarmeðlimirnir hafi lagt til eigin hugmyndir áður en lokaútgáfa lagsins var tilbúin.

Myndbandið við lagið er ansi magnað en það fjallar um náunga sem breytir öllu sem hann snertir í teiknimyndir. “Daði, Mummi og Atli Eyberg Örlygsson, sem leikur í myndbandinu, fóru út með myndavél einn daginn og tóku hátt í 400 ljósmyndir. Síðan hefur Daði verið að föndra lengi við þessar teikningar og að setja saman myndbandið og við erum mjög ánægðir með útkomuna,“ segir Gunnlaugur.

Hljómsveitin hefur verið á fullu við spilamennsku frá því að hún sigraði Músiktilraunir og meðal annars spilað á Airwaves og á þremur tónleikum í Hollandi. „Okkur var ótrúlega vel tekið í Hollandi og það voru allir mjög hrifnir af okkur. Við önnum ekki eftirspurninni frá Hollendingum sem að hafa verið að panta plötuna okkar,“ segir Gunnlaugur og á þar við EP plötuna Blackout sem RetRoBot sendi frá sér í haust og hefur fengið góðar móttökur.

„Núna er bara að koma sér almennilega út í leikinn og halda tónleika og vera duglegir við að semja og semja og semja. Þær fréttir hafa borist til okkar að það eigi að opna tvo nýja bari á Selfossi ef að svo er raunin þá getum við farið að spila aftur eitthvað almennilega á heimavelli,“ sagði Gunnlaugur að lokum.
Fyrri greinTólfta Selfossþorrablótið framundan
Næsta greinHannes Kristmundsson látinn