Nýtt lag og myndband frá Flekum

Sunnlenska hljómsveitin Flekar er þessa dagana að kynna sitt annað lag og ber það nafnið 'Terrible Movies'.

Hljómsveitin er tiltölulega ný af nálinni, en hún kynnti sitt fyrsta lag Without a Rider í byrjun sumars.

‘Terrible Movies’ er knappt og kjarnyrt – stíllinn er léttleikandi, þó textahöfundurinn Vignir Andri Guðmundsson þreifi á sama tíma á myrkari hliðum afþreyingar og metorða.

Með laginu fylgir að sjálfsögðu myndband sem trommari hljómsveitarinnar, Skúli Arason, galdraði fram í kvöldsólinni, sem nú er löngu farin og því ágætis áminning um betri tíð í haustlægðinni.

Bassa- og gítarleikari Fleka, Sigurbjörn Már Valdimarsson, framreiddi hljóðheim lagsins, sem eins og kattartunga leikur vinalega um eyru hlustenda, en er hrjúf um leið.

Dýrðina má líta í myndbandinu hér að neðan.