Nýr og „þroskaðri“ 800Bar opnar í næstu viku

800Bar á Selfossi opnar á nýjan leik í næstu viku en skemmtistaðurinn varð eldi að bráð í mars í fyrra. Nýjar áherslur verða á staðnum sem opnar nú á nýjum stað í miðbæ Selfoss.

Nýi barinn er til húsa að Eyravegi 2 við hliðina á Domino’s Pizza á besta stað í miðbænum. Eiður Birgisson, eigandi 800Bars, segir að nýji staðurinn sé gjörólíkur og mun „þroskaðri“ en barinn sem brann. „Í raun og veru er nafnið það eina sem heldur lífi eftir brunann, ég hef sterkar taugar til nafnsins sem hefur gengið í gegnum súrt og sætt,“ segir Eiður en nýji staðurinn heitir fullu nafni 800Bar Café Bistro.

Eins og nafnið gefur til kynna þá verður meira í boði á nýja staðnum en áfengir drykkir. „Ég ætla að bjóða upp á fjölbreytni í þessu. Það verða í boði hollar heilsusamlokur og heilsudjús sem kreistur er á staðnum, óhollar vöfflur, kökur, kaffi og heitt súkkulaði. Með fullri virðingu fyrir skyndibita- og veitingastöðunum hér á Selfossi þá finnst mér nóg framboð af kokteilsósu og majónesi. Við bjóðum upp á hollar samlokur og heilsudjús. en vöfflurnar verða ekki hollar, það má ekki skemma vöfflur,“ segir Eiður léttur.

Veitingarnar á barnum sjálfum verða heldur ekki af verri endanum þar sem meðal annars verður boðið upp á tíu mismunandi tegundir af bjór og fyrir þá sem hafa nógu þroskaða bragðlauka til að kunna að meta eðalvín verða nokkrar tegundir af koníaki, whiskey og rommi í boði.

800Bar mun opna formlega í nýja húsnæðinu í miðbæ Selfoss í næstu viku og verður opnunartíminn frá kl. 11 og fram á kvöld öll kvöld vikunnar. Þegar hurðin opnar formlega verður það tilkynnt á Facebooksíðu 800Bars. Þar er einnig hægt að skoða myndir af nýja staðnum.

„Í miðri viku verður tónlistin stillt þannig að fólk geti talað saman yfir mat eða drykk. Svo verður smá fjör á okkur um helgar eftir miðnætti þá verður annað veifið boðið upp á lifandi tónlist.,“ segir Eiður og bætir við að tónlistarstefnan verði ekki af verri endanum, eingöngu gömul og góð tónlist.

Eiður hannaði staðinn sjálfur og er barinn í skemmtilegum gömlum stíl. Staðurinn er skreyttur með myndum og textum um heimsfræga Íslendinga og verið er að hanna vegg um landsþekkta Sunnlendinga. „Ein af nýjungunum er sú að við bjóðum skákmenn og spilafólk velkomið á staðinn og spila eða tefla. Hér verða taflborð og spil og við bjóðum upp á fría þráðlausa nettengingu,“ segir Eiður.

Fyrir þá sem hafa gaman af því að freista gæfunnar þá verða í bakherbergi sex spilakassar frá Gullnámunni og lukkuhjól á barnum þar sem meðal annars er hægt að vinna polaroid myndatöku og fá mynd af sér upp á vegg á barnum.

„Ég vil bara óska Sunnlendingum til hamingju með nýja barinn þeirra. Staðurinn á að höfða til þeirra sem eldri eru og til að leggja línurnar þá verður 20 ára aldurstakmark inn á staðinn eftir klukkan tíu á kvöldin,“ segir Eiður sem er á fullu að fara yfir starfsumsóknir þessa dagana og enn er hægt að sækja um á eidur@800bar.is.

Fyrri greinÆgir vann á Egilsstöðum – jafnt hjá Hamri og Sindra
Næsta greinÍslendingar duglegri að nota tjaldsvæðin