Nýjar áherslur á nýjum 800Bar

800Bar á Selfossi mun opna á nýjum stað á þessu ári, við Austurveg 52. Barinn sem stóð áður við Eyraveg varð eldi að bráð í mars á síðasta ári.

Ritstjórn vekur athygli á því að um er að ræða frétt frá árinu 2013.

„Við vonum að barinn verði rekinn á þessum stað til framtíðar. Það væri reyndar réttast að kalla nýja staðinn 800Café en við höfum ákveðið að halda okkur við nafn sem fólkið þekkir,“ sagði Eiður Birgisson, veitingamaður á 800Bar, í samtali við sunnlenska.is.

„Það verða nýjar áherslur á nýjum stað. Við tökum það besta úr gamla 800Bar sem hentar þessu nýja húsnæði sem er töluvert minna. Þarna verður allt frekar rólegt og kósy en okkur langar þó að geta boðið upp á lifandi tónlist, trúbadora og þess háttar,“ segir Eiður en á sínum tíma stóð 800Bar að mörgum skemmtilegum keppnum sem hann vonar að verði áfram á sínum stað, t.d. trúbadorakeppni og uppistandskeppni.

Það er kannski kaldhæðnislegt í ljósi sögunnar að nýi barinn opnar í gömlu slökkvistöðinni á Selfossi, eftir að gamli staðurinn brann. „Já, úr því að svona fór þá kom ekkert annað til greina en að opna í slökkvistöðinni. Við hljótum að vera öruggir hér,“ segir Eiður brosandi en húsnæðið sem barinn opnar í hýsti áður bílageymslu og skrifstofur Brunavarna Árnessýslu.

Nýi staðurinn verður tæpir 200 fermetrar en það er töluvert minna en fyrra húsnæði. „Ég tel það vera mikinn kost til að ná upp góðri stemmningu og þarna er kominn bar til að vera um ókomna framtíð, í þeirri stærð sem barir eiga að vera í að mínu mati. Hugmyndarvinnan á bakvið reksturinn er enn í smíðum en við vitum þó að á nýja staðnum verður allt heldur rólegra en fólk mátti venjast á gamla 800Bar,“ segir Eiður.

Að sögn Eiðs mun staðurinn opna á þessu ári en nákvæmari tímasetningu er ekki hægt að gefa upp að svo stöddu.

UPPFÆRT 14.01 KL. 20:19

Fyrri greinFSu skellti Hamri í grannaslagnum
Næsta greinLjósleiðarahátíð í Árnesi