Miðasala hafin á Kallakvöld Sleipnis

Kallakvöld Hestamannafélagsins Sleipnis verður haldið í Þingborg í Flóahreppi nk. föstudag, 6. maí kl. 20:00.

Veislustjórinn kemur frá öðru héraði að öllum líkindum og verður ekki af verri endanum. Frábær humarsúpa í forrétt, lambalæri með tilheyrandi meðlæti í aðalrétt, kaffi og það sem ekki má nefna í eftirrétt, allt galdrað fram af snilldarkokknum Eiríki Þór Eiríkssyni sem er sérfræðingur í sunnlensku úrvalshráefni.

Happadrætti þar sem fjöldi veglegra vinninga verður í boði. Ræðumaður kvöldsins kemur vestan úr Borgarfirði, Gísli Einarsson hinn þjóðkunni sjónvarpsmaður og væntanlega mun hann bregða sér í líki landans. Hápunktur kvöldsins verður uppboð á folatollum og öðrum eigulegum hlutum. Lifandi tónlist, leynigestur og ýmislegt fleira.

Allur afrakstur af kallakvöldinu rennur til Reiðhallar Sleipnis. Taktu frá kvöldið og tryggðu þér miða. Miðar eru seldir á Toytota á Selfossi, miðaverð kr. 5.000.