Miðasala á aukatónleika hefst í dag

Í dag hefst miðasala á aukatónleika Jónasar Sigurðssonar ásamt Lúðrasveit Þorlákshafnar og borgfirska englakórnum á Borgarfirði eystri fimmtudaginn 25. júlí. Miðar á fyrstu tónleikana seldust upp á einum degi.

Þar sem miðasalan á tónleikana kl. 22 gekk svona glimrandi vel og færri komust að en vildu, var ákveðið að bæta við öðrum tónleikum kl. 19.00 sama dag. Miðasalan hefst kl. 10.00 í dag á midi.is.

Eftir þrenna uppselda útgáfutónleika sem haldnir voru í Þorlákshöfn í október 2012 ákvað Jónas og föruneyti hans að endurtaka leikinn á Borgarfirði eystri á fimmtudeginum fyrir tónlistarhátíðina Bræðsluna.

Þessir stórfenglegu tónleikar þar sem öllu verður tjaldað til verða haldnir í Fjarðarborg fimmtudaginn 25. júlí. Fram munu koma ásamt Jónasi, Lúðrasveit Þorlákshafnar og borgfirska englakórnum, Stefán Örn Gunnlaugsson á hljómborð, Ómar Guðjónsson á gítar, Ingi Björn Ingason á bassa, Arnar Gíslason á trommur, Rósa Guðrún Sveinsdóttir á Saxafón, Valdimar Guðmundsson á básúnu og Eiríkur Rafn Stefánsson á trompet.

Það er líklegt að aldrei hafi annar eins fjöldi komið saman fram í einu á sviðinu í Fjarðarborg og má gera ráð fyrir að hér verði á ferðinni einstakur viðburður og upplifun fyrir öll skilningarvit.

Fyrri greinÁrborg og Stokkseyri töpuðu
Næsta greinVefmyndavél í miðbæ Selfoss