Mánar leika fyrir dansi

Hin goðumkennda hljómsveit Mánar frá Selfossi eru á meðal þeirra sem koma fram á bæjarhátíðinni Kótelettunni í næsta mánuði.

Hljómsveitin, sem er skipuð þeim Ólafi Þórarinssyni, Birni Þórarinssyni, Guðmundi Benediktssyni, Smára Kristjánssyni og Ragnari Sigurjónssyni, mun leika á balli á innisviði laugardagskvöldið 11. júní eftir miðnætti ásamt hljómsveitinni Karma.

Þetta er í fyrsta sinn í fjöldamörg ár sem hljómsveitin kemur fram á dansleik, en sveitin var ein af stærstu sveitaballasveitum landsins á árum áður. Svo vinsæl var hljómsveitin á Suðurlandi að aðrar sveitir forðuðust samkeppni við Mána eins og heitan eldinn og skipti þá engu hvort þær sveitir kæmu frá Reykjavík, Akureyri eða Keflavík.

Mánar áttu 50 ára starfsafmæli í fyrra og eru nú í hljóðveri að taka upp nýja plötu sem kemur út innan tíðar.

Þetta verður því einstakt tækifæri fyrir Sunnlendinga til að rifja upp stemmninguna frá sveitaböllum fyrri tíma og einnig fyrir þá yngri að kynnast alvöru íslensku sveitaballi. Mánar spila lög sem voru vinsæl á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar ásamt völdum lögum sínu safni.

Nánari upplýsingar um dagskrá hátíðarinnar má nna á www.kotelettan.is og er miðasala í Gallerí Ozone Selfossi og á midi.is.