Lucy in Blue í 2. sæti

Rokkhljómsveitin Lucy in Blue frá Hveragerði og Reykjavík varð í 2. sæti í Músiktilraunum 2014 en úrslitakvöldið fór fram fyrir fullu húsi í Norðurljósasal Hörpunnar í kvöld.

Hljómsveitin Vio frá Mosfellsbæ bar sigur af hólmi en Lucy in Blue varð í 2. sæti og liðsmenn sveitarinnar rökuðu að sér verðlaunum. Steinþór Bjarni Gíslason var valinn gítarleikari Músiktilrauna og Arnaldur Ingi Jónsson var valinn besti hljómborðsleikarinn. Auk þeirra eru í hljómsveitinni þeir Matthías Hlífar Pálsson, bassi og Kolbeinn Þórsson, trommur.

Björn Heimir Önundarson, frá Breiðabólsstað í Fljótshlíð, bassa- og trompetleikari hljómsveitarinnar Captain Syrup var valinn besti bassaleikarinn í ár en meðlimir hljómsveitarinnar koma auk Björns úr Vík í Mýrdal og af höfuðborgarsvæðinu. Gestasöngvari sveitarinnar í Músiktilraunum var Hvergerðingurinn Andri Kjartan Andersen.

Þriðji fulltrúi Sunnlendinga í úrslitunum var hljómsveitin Ring of Gyges en gítarleikari hennar er Helgi Jónsson frá Selási í Holtum.

Alls hófu 44 hljómsveitir keppni í Músiktilraunum í ár og voru sjö þeirra sunnlenskar að einhverjum eða öllum hluta.

UPPFÆRT 7.4.2014 KL. 12:37