Kiriyama spilar ekki í Keflavík

Sunnlenska sveitin Kiriyama Family kemur ekki fram á Keflavík Music Festival í kvöld, eins og auglýst hafði verið.

Í tilkynningu sem sveitin sendi frá sér í kvöld kemur fram að í ljósi frétta sem borist hafa af hátíðinni í dag og fyrri reynslu hafi Kiriyama Family beðið tónleikahaldarana að gefa sér tryggingu fyrir því að við hljómsveitin fengi borgað fyrir sitt framlag, einsog um var samið, en ekkert varð úr því.

„Við vonum innilega að þetta kyndi undir þarfa umræðu um tónleikamenningu hér á landi. Aftur biðjum við þá sem hafa tryggt sér miða og voru að vonast til að sjá okkur og heyra í kvöld innilega afsökunar. Vonandi fáið þið endurgreitt! Þið eigið inni hjá okkur tónleika,“ segja þeir Bassi, Guðmundur, Karl, Jóhann og Víðir í tilkynningunni.

Á annan tug hljómsveita og tónlistarmanna hafa hætt við að koma fram á hátíðinni þar sem tónleikahaldararnir hafa ekki getað staðið við gerða samninga. Þeirra á meðal eru Jónas Sigurðsson og Ritvélar framtíðarinnar. Önnur sunnlensk sveit, The Wicked Strangers, lýsti því yfir á Facebooksíðu sinni í dag að hún myndi halda sínu striki og spila á Kaffi Duus í Keflavík í kvöld.

Fyrri greinHúsasmiðjan á Selfossi 15 ára
Næsta greinSveitarfélög geta ekki bannað nauðungarsölur