Kiriyama Family spilar á Húkkaraballinu

Að venju hefst þjóðhátíð í Vestmannaeyjum með Húkkaraballinu sem fram fer í kvöld. Sunnlenska sveitin Kiriyama Family heldur uppi stemmningunni á Húkkaraballinu ásamt Blaz Roca og Friskó.

Hátíðin verður formlega sett klukkan hálfþrjú á morgun, föstudag. Eftir það tekur við dagskrá fram á sunnudag, þegar hápunktinum er náð með brekkusöngnum.

Í ár verður einnig boðið upp á dansleiki, söngvakeppni barna, brúðubílinn, íþróttasýningar og tónleika svo fátt eitt sé nefnt.

„Ég hef ekki fengið svona veðurspá í mörg ár, straumurinn er mikill og dagskráin stórkostleg,“ segir Páll Scheving, formaður þjóðhátíðarnefndar og bætir við að hátíðin í ár verði hreint út sagt rosaleg.

Frekari upplýsingar um dagskrá þjóðhátíðar má sjá á heimasíðu hátíðarinnar.