Keppir um 5.000 dollara

Ingibjörg Torfadóttir, ljósmyndari frá Þorlákshöfn, tekur um þessar mundir þátt í myndbandasamkeppni á vegum hljómsveitarinnar Sigur Rósar. Stærstu verðlaunin eru 5.000 dollarar eða um 610.000 krónur íslenskar.

„Verðlaunin eru tvennskonar. Annarsvegar eru peningaverðlaun en Sigur Rós velur hverjir vinna þau og svo er netkosningin þar sem fólk velur sigurvegarann. Þar er hægt að vinna ýmiskonar góðgæti tengt Sigur Rós eins og t.d. Valtari teppi og plaköt en öll myndböndin eru gerð við lög af samnefndri plötu Sigur Rósar,” segir Ingibjörg sem lærði ljósmyndun og grafíska hönnun í Danmörku.

„Að auki verður myndbandið á heimasíðu Sigur Rósar sem gefur auðvitað mikla athygli erlendis frá og myndi skapa ýmis tækifæri,” segir Ingibjörg sem hefur að eigin sögn alltaf verið mikill aðdáandi Sigur Rósar.

„Það máttu allir taka þátt en þessu var beint mest að kvikmyndagerðarfólki og á endanum tóku 850 manns þátt. Ég varð nú eiginlega smá smeyk þegar ég sá hvað margir tóku þátt og hvað sum myndböndin eru með stórt tökulið á bakvið sig, á meðan ég er litli Íslendingurinn að gera þetta ein með Önju krútti í Heiðmörk,” segir Ingibjörg hlæjandi en leikkonan í myndbandinu hennar er hin fimm ára gamla Anja Sæberg Bassadóttir.

Þegar fréttin er skrifuð er myndband Ingibjargar í fjórða sæti. Kosningin hófst í gær og stendur í viku. Þann 8. október verður svo tilkynnt um vinningshafann. Hægt er að kjósa myndband Ingibjargar hér.