„Kemur mjög á óvart“

Metþátttaka var í kosningunni um netstúlku sunnlenska.is en 4.466 atkvæði voru greidd. Fjórum atkvæðum munaði á Bylgju Sif Jónsdóttur og stúlkunni sem varð í 2. sæti.

„Ég er mjög ánægð með netstúlkutitilinn en hann kemur mjög á óvart því ég hélt að einhver Eyjastelpnanna myndi taka þetta,“ sagði Hvergerðingurinn Bylgja Sif í samtali við sunnlenska.is eftir keppnina.

„Þetta var mjög gaman í kvöld, rosalega stressandi reyndar, en gífurlega gaman. Ég var stressuð á leiðinni upp á svið en um leið og maður var kominn þangað þá reddaðist það einhvernveginn.“

Bylgja varð auk þess í 5. sæti í keppninni og mun því taka þátt í keppninni um Ungfrú Ísland. „Það verður spennandi áfangi, það er ennþá stærra svið en þetta og ég ætla bara að taka það með stæl.“

Keppnum helgarinnar er ekki lokið hjá Bylgju Sif því að í kvöld keppir kærasti hennar, Anton Guðjónsson, í Músiktilraunum með hljómsveit sinni Glundroða. Bylgja Sif fylgir sínum manni á keppnina og veðjar auðvitað á sigur Glundroða.