Jónas Sig og LÞ á stórtónleikum í Grindavík

Í ár fagnar Grindavík 40 ára kaupstaðarafmæli og verður m.a. haldið upp á það með menningarviku sem stendur nú yfir. Hápunktur hennar verða stórtónleikar í íþróttahúsinu laugardaginn 22. mars kl. 20:30.

Á tónleikunum munu hinir alkunnu Fjallabræður og hinn geðþekki Jónas Sigurðsson flytja verk sín ásamt áttatíumanna Lúðrasveit Vestmannaeyja og Þorlákshafnar. Þessir aðilar eru ekki með öllu ókunnugir hver öðrum, enda hefur samstarf þessara tónlistarhópa að undanförnu skilað mikilli gleði og ánægju jafnt til flytjenda sem og áhorfenda.

Lúðrasveit Vestmannaeyja og Fjallabræður eiga sameiginlega sögu frá því þeir hittust fyrst 2010 á Þjóðhátið. Þjóðhátíðarlagið 2012 „Þar sem hjartað slær“ þekkja flestir, en það er samið af Halldóri Gunnari Pálssyni stjórnanda Fjallabræðra og flutt af Kórnum og Lúðrasveitinni. Þá hafa þessir aðilar haldið sameiginlega tónleika í Reykjavík, Ísafirði og nú síðast á goslokahátíð í Vesmannaeyjum þar sem um 1700 manns skemmtu sér hið besta.

Lúðrasveit Þorlákshafnar og Jónas Sig hafa átt í afar farsælu sambandi enda Jónas sjálfur frá Þorlákshöfn og hóf þar sinn tónlistarferil sem bassatrommuleikari hjá Róberti Darling stjórnanda Lúðrasveitar Þorlákshafnar. Saman gáfu Jónas Sig og Lúðrasveit Þorlákshafnar út diskinn „Þar sem himinn ber við haf“ og voru í framhaldi af því með tónleikaröð í Þorlákshöfn og á Borgarfirði Eystri.

Skemmst er frá því að segja að uppselt hefur verið á alla viðburði sem þessir hópar hafa haldið saman og lætur nærri að um 10.000 manns hafi sótt viðburði þessa. Auk þess hafa afurðir hópanna vermt efstu sæti vinældarlista útvarpsstöðva.

Þessi viðburður er sérstaklega settur saman fyrir afmæli Grindavíkurkaupstaðar. Þessir aðilar hafa ekki komið saman á þennan hátt áður og verður hér um einstakan viðburð að ræða þar sem blandað verður saman þvi besta sem þeir hafa fram að færa. Þarna munu saman koma hópar frá sjávarplássunum Flateyri, Þorlákshöfn og Vestmannaeyjum í sjávarplássinu Grindavík. Eins og öllum er kunnugt sem á annað borð þekkja til þessara sjávarplássa, þá eru náttúruöflin kröftug og það sama má segja um fólkið sem þar býr og því er óhætt að lofa kraftmiklum og stórskemmtilegum tónleikum sem enginn má láta framhjá sér fara!

Miðasalan fer fram í Aðal-braut í Grindavík og á netfanginu tryggjasermida@gmail.com og er miðaverð 3.900 kr.