Jónas og lúðrasveitin skoða aukatónleika

Miðasala á tónleika Jónasar Sigurðssonar og Lúðrasveitar Þorlákshafnar ásamt borgfirska englakórnum sem haldnir verða á Borgarfirði eystri í lok júlí hófst í gærmorgun og að nokkrum klukkustundum liðnum var orðið uppselt.

Eftir þrenna uppselda útgáfutónleika sem haldnir voru í Þorlákshöfn í október í fyrra langaði Jónasi og hans fríða föruneyti að endurtaka leikinn og var því ákveðið að blása til tónleika í Fjarðarborg á Borgarfirði eystri þann 25. júlí.

Þar verður öllu tjaldað til en ásamt Jónasi koma fram Lúðrasveit Þorlákshafnar og borgfirski englakórinn, Stefán Örn Gunnlaugsson á hljómborð, Ómar Guðjónsson á gítar, Ingi Björn Ingason á bassa, Arnar Gíslason á trommur, Rósa Guðrún Sveinsdóttir á Saxafón, Valdimar Guðmundsson á básúnu og Eiríkur Rafn Stefánsson á trompet.

Það er líklegt að aldrei hafi annar eins fjöldi komið saman fram í einu á sviði í Fjarðarborg og má gera ráð fyrir að hér verði á ferðinni einstakur viðburður og upplifun fyrir öll skilningarvit.

Miðasalan hófst kl. 10 í gærmorgun og síðdegis var orðið uppselt en úr herbúðum Jónasar berast nú þær fréttir að verið sé að skoða möguleika á aukatónleikum vegna mikils áhuga og eftirspurnar.

Fyrri greinBrotlending við Sultartangalón
Næsta greinÞórir mætir með norska liðið á Selfoss