Jónas og lúðrasveitin á toppnum

Jónas Sigurðsson og Lúðrasveit Þorlákshafnar skipa toppsæti Vinsældalista Rásar 2 þessa vikuna með lagið Hafið er svart.

Lagið er af þriðju sólóplötu Jónasar sem nefnist Þar sem himinn ber við haf. Jónas vann plötuna í samvinnu við Lúðrasveit Þorlákshafnar og tónlistarband eldri borgara í Ölfusi, Tóna og Trix.

Þetta er annað lagið af plötunni sem nær toppsæti listans en Þyrnigerðið sat á toppnum um tveggja vikna skeið í ágúst.

Fleiri Sunnlendingar eiga sæti á listanum því Kiriyama Family hafa setið þar undanfarnar átta vikur með lagið Heal og eru nú í 11. sæti og Hreimur Örn Heimisson er sína fimmtu viku á lista með lagið Þegar þú ert hér í 19. sæti.

Íslenska þjóðin tekur þátt í vali Vinsældalista Rásar 2. Sighvatur Jónsson kynnir nýjan lista á laugardögum milli klukkan 16 og 18. Listinn er endurfluttur á sunnudagskvöldum frá klukkan 22 til miðnættis.