Jónas með fjórar tilnefningar

Tónlistarmaðurinn Jónas Sigurðsson frá Þorlákshöfn er tilnefndur til fjögurra verðlauna á Íslensku tónlistarverðlaununum fyrir plötuna Þar sem himin ber við haf.

Platan er tilnefnd sem hljómplata ársins og Jónas er tilnefndur sem lagahöfundur ársins í flokknum popp og rokk auk þess að vera tilnefndur sem textahöfundur ársins.

Þá eru Jónas og Lúðrasveit Þorlákshafnar tilnefnd sem tónlistarflytjendur ársins fyrir skemmtilegt samstarf og glæsilega útgáfutónleika í Þorlákshöfn.

Fleiri Sunnlendingar eru tilnefndir en Selfyssingurinn Magnús Öder Kristinsson er tilnefndur sem upptökustjóri ársins fyrir plöturnar Moment með Láru Rúnars og Önnur Mósebók með Moses Hightower.