Íþróttafólk keppir í Selfoss Got Talent!

Kvennalið Selfoss í knattspyrnu blæs til nýársfögnuðar á skemmtistaðnum Fróni á Selfossi laugardaginn 10. janúar þar sem nokkur íþróttalið í Árborg munu spreyta sig í "Selfoss Got Talent!".

Þetta er í fyrsta sinn sem hæfileikakeppni sem þessi er haldin og verður spennandi að sjá hver mun taka bikarinn með sér heim. Showið byrjar klukkan 20 og lýkur ekki fyrr en klukkan 3 um nóttina, því eftir hæfileikakeppnina tekur við risa ball sem meistaraflokkur kvenna í knattspyrnu stendur fyrir. Stelpurnar skoruðu á meistaraflokka karla- og kvenna hjá Selfoss í handbolta, FSu liðin í körfubolta, handboltalið Mílan, meistaraflokk Selfoss í fimleikum og karlalið Selfoss og Árborgar í knattspyrnu að mæta með magnað atriði inn í keppnina.

„Við erum að reyna að byrja nýja hefð sem að sameinar vonandi liðin og eykur samvinnu og liðsheild innan sem utan Umf. Selfoss. Þetta er allt liður í fjáröflun fyrir Spánarferð kvennaliðsins sem er mikilvægur undirbúningur fyrir komandi tímabil og eins og allir vita þá ætlum við okkur að gera ennþá meira og betur en síðasta sumar,“ sagði Brynja Valgeirsdóttir, leikmaður Selfoss, í samtali við sunnlenska.is. „Eftir hæfileikakeppnina ætlum við að halda risastórt ball á Frón og vonum við svo sannarlega að sem flestir láti sjá sig og byrji nýja árið með stæl ásamt okkur öllum.“

Það kostar 500 krónur inn á viðburðinn, hvort sem fólk mætir kl. 20 eða 02 og stelpurnar hvetja alla Sunnlendinga til þess skemmta sér með þeim á laugardaginn.
Fyrri greinÞrettándagleði frestað á Selfossi
Næsta greinFjöldi fyrirtækja studdi við jólaball Lions