Hulda Kristín sigraði Söngkeppni NFSu

Hulda Kristín Kolbrúnardóttir sigraði Söngkeppni NFSu sem haldin var í íþróttahúsinu Iðu á Selfossi í kvöld, en alls tóku 14 keppendur þátt í keppninni.

Hulda Kristín söng lagið You´ve got the Love sem upprunalega er með hljómsveitinni The Source en Hulda Kristín flutti lagið í útgáfu Florence and the Machine og gerði það mjög vel.

Í öðru sæti var Fríða Hansen sem söng Queen-lagið I want it all og í þriðja sæti voru systurnar Margrét Harpa, Þuríður Marín og Steinunn Birna Jónsdætur, en þær sungu lagið Around us eftir Jónsa úr SigurRós.

Sérstök verðlaun fyrir sviðsframkomu fengu félagarnir Albert Rútsson og Ívar Máni.

Á meðan dómnefnd kvöldsins gerði upp hug sinn fluttu Glundroði, sem var hljómsveit kvöldsins, frumsamið lag og sigurvegarinn frá því í fyrra, Gunnlaugur Bjarnason, gerði það einnig.

Á eftir þeim steig leynigestur kvöldsins á svið, en það var söngvarinn góðkunni Jón Jónsson og kunnu gestir í sal svo sannarlega vel að meta það leyniatriði.

Keppnin var í alla staði glæsileg og greinilegt að nemendur höfðu lagt mikla vinnu í verkið.

Fyrri greinEggert Valur: Kraftmikinn leiðtoga í fyrsta sæti
Næsta greinKiriyama með Ensími á Faktorý