Hrynfastir Flóarokktónleikar í Félagslundi

Laugardaginn 13. október verða haldnir tónleikar með hinni goðsagnakenndu Flóarokkhljómsveit Dirrindí í Félagslundi í Gaulverjabæjarhreppi.

Dirrindí var stofnuð árið 1995 af Jónasi Má Hreggviðssyni og Guðmundi Þór Jóhannessyni. Markmiðið var strax að semja og flytja frumsamda tónlist og fljótlega varð til safn úrvalskvæða um ýmis hugðarefni, vini, vandamenn og nærsveitunga. Árið 2009 voru svo öll herlegheitin gefin út á disknum, Lóan er komin.

Dirrindí leikur bæði hrynfast karlrembuskotið rokk og léttleikandi gleðitóna sem nefnast einu nafni Flóarokk. Meðlimir Dirrindí auk þeirra Jónasar og Guðmundar eru Sigurður Óli Kristinsson, Ingólfur Arnar Þorvaldsson og Daníel Snorrason; allir nátengdir Hraungerðishreppi hinum forna.

Húsið opnar kl. 20:30 og tónleikar hefjast kl. 21:00. Miðaverð er aðeins kr. 2.000.

Fyrri grein„Blóm og fræ“ á Bókasafninu í Hveragerði
Næsta greinLýst eftir vitnum vegna rannsóknar á nauðgun