Hrikalega flottir tónleikar á Sumar á Selfossi

Á bæjarhátíðinni Sumar á Selfossi verða ótrúlega spennandi tónleikar, Tal-tónleikarnir, í hátíðartjaldinu í bæjargarðinum fimmtudagskvöldið 9. ágúst.

Sex af efnilegustu hljómsveitum landsins munu mæta á svæðið og leiða saman hesta sína.

Þar skal fyrsta telja heimamennina í Kiriyama Family sem hafa verið að gera það ótrúlega gott í sumar. Lagið þeirra Weekends hefur trónað á toppi vinsældarlista Rásar 2 undanfarnar vikur og nýja platan þeirra hefur fengið frábæra dóma. Bassi Labbason segir að kvöldið lofi alveg gríðarlega góðu og gaman verði að spila með öllum þessum flottu böndum á Selfossi.

Reykvíska hljómsveitin Caterpillarmen er eitt allra flottasta bandið á landinu í dag og gæti orðið næsta íslenska hljómsveitin sem meikar það erlendis. Afar spennandi hljómsveit sem Sunnlendingar ættu að drífa sig að koma og sjá áður en þeir verða of stórir. The Vintage Caravan er hljómsveit frá Álftanesi sem spilar alvöru rokk í anda sjöunda áratugarins. Með hljómsveitinni leikur einn allra efnilegasti gítarleikari landsins, Óskar Logi Ágústsson. Allir áhugamenn um rokk og blúsgítarleik ættu að drífa sig á tónleikana og berja drenginn augum.

Frá Vestmannaeyjum kemur eitt flottasta tónleikaband landsins Foreign Monkeys. Bandið hefur fengið mikið lof fyrir skemmtilega og kraftmikla sviðsframkomu og það er mikill hugur í Eyjamönnum fyrir tónleikunum og lofa þeir gargandi stemmningu. Frá Suðurlandsundirlendinu kemur önnur mjög spennandi hljómsveit The Wicked Strangers. Hljómsveitin sigraði á Rokkstok hátíðinni sem haldin var í Reykjanesbæ fyrra og lenti í þriðja sæti í Battle of the bands sama ár. Hljómsveitin er nýkomin heim af hljómleikaferð um Ameríku og það bíða margir spenntir eftir heyra í þeim. Gunnar Guðni, söngvari hljómsveitarinnar, segir að það sé alveg frábært að koma heima og taka þátt í svona flottum tónleikum á Selfossi. Það sé hrikalega mikið að gerast í sunnlensku tónlistarlífi um þessar mundir og Sunnlendingar ættu að nýta tækifærið og skella sér flotta tónleika.

Óþekktarormarnir í Elínu Helenu eru sjötta bandið sem mun koma fram á tónleikunum. Elín Helena er að stærstum hluta ættuð frá Selfossi og hefur fengið frábæra dóma. Atli Fannar á Fréttablaðinu og einn helsti poppfræðingur landsins lýsti því yfir að Elín Helena væri ein besta hljómsveit Íslandssögunnar. Eyvi, sonur Ástu Marlings og söngvari hljómsveitarinnar, var hógværðin uppmáluðu þegar leitað var til hans en sagði að strákarnir væri mjög hressir og hlakkaði mikið til að koma heim og pönkast.

Tónleikarnir hefjast kl 21:00 og er ókeypis inn í boði Tal.