Hljóðneminn til Þorlákshafnar

Þorlákshafnarbúinn Júlí Heiðar Halldórsson sigraði í Söngkeppni framhaldsskólanna sem nú var að ljúka í íþróttahöllinni á Akureyri ásamt félaga sínum Kristmundi Axel Kristmundssyni.

Þeir Júlí Heiðar og Kristmundur Axel kepptu fyrir Borgarholtsskóla og fluttu rappútgáfu af Clapton laginu Tears In Heaven, sem útleggst á íslensku Komdu Til Baka.

Sunnlensku skólarnir stóðu sig með prýði. Fyrir Menntaskólann að Laugarvatni kepptu Hörður Már, Jóhanna Linda og Kolfinna og fyrir Fjölbrautaskóla Suðurlands keppti Gunnar Guðni Harðarson.

Þetta var 20 ára afmæliskeppni og af því tilefni afhenti Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, Júlí Heiðari og Kristmundi Axel sigurlaunin, hljóðnemann góða.

Menntaskólinn á Akureyri varð í öðru sæti og Verslunarskóli Íslands í því þriðja en 32 skólar tóku þátt í keppninni.

Fyrri greinGuðmundur Ingi sigraði Torfa
Næsta greinBjörn Lár ekki hættur við framboð