Heimsviðburður framundan á 800Bar

Blað verður brotið í sunnlenskri skemmtanasögu næstkomandi laugardagskvöld þegar hin heimsfræga tónlistarkona Leoncie kemur fram á 800Bar á Selfossi.

Sunnlenskir aðdáendur söngkonunnar eru eflaust orðnir eftirvæntingarfullir en níu ár eru liðin frá því Leoncie kom síðast fram á Selfossi.

Eiður Birgisson, eigandi 800Bar, segist eiga von á spennandi kvöldi en um einstakan viðburð verði að ræða. „Þetta er viðburður á heimsmælikvarða og ég vona að fólk nýti þetta einstaka tækifæri og mæti. Kvöld sem þetta kemur aldrei aftur en sérfag Leoncie er að skemmta fólki,“ sagði Eiður í samtali við sunnlenska.is.

Plötusnúðurinn DJ GK (Gay Kay) mun opna kvöldið og keyra veisluna í gang. Húsið opnar klukkan níu og er fólk hvatt til að mæta snemma til þess að forðast örtröð.

„Indverska prinsessan mun stíga á svið á milli klukkan tólf og eitt og síðan tekur hún pásu og mætir aftur á svið síðar um nóttina, þá í öðru dressi,“ segir Eiður en heppnir gestir munu fá gefins geisladiska frá Leoncie auk þess sem hún mun selja og árita diska á staðnum.

Þeir sem komast alls ekki á þennan stórviðburð geta séð brot af kvöldinu á Snapchat með því að fylgjast með attahundrudbar. „800Bar er einmitt fyrsti barinn á landinu sem leyfir áhugasömum að fylgjast með á Snapchat en aðrir staðir eru nú farnir að teika þessa skemmtilegu hugmynd okkar,“ sagði Eiður að lokum.

Á Facebooksíðu 800Bars er hitað upp fyrir kvöldið og sunnlenska.is hitar upp hér að neðan með myndbandi með Leoncie við eitt af hennar þekktustu lögum, Come on Viktor.

Fyrri greinPáskabingó í Sunnulækjarskóla
Næsta greinVorfuglar í Eggjaskúrnum