Gunnlaugur sigraði

Selfyssingurinn Gunnlaugur Bjarnason sigraði í söngkeppni Nemendafélags Fjölbrautaskóla Suðurlands sem var að ljúka í íþróttahúsinu Iðu.

Gunnlaugur söng GusGus lagið Within you en Anna Rut Arnardóttir lék undir hjá honum á fiðlu. Þau verða fulltrúar FSu í Söngkeppni framhaldsskólanna sem fram fer á Akureyri á vorönn.

Annar varð Stokkseyringurinn Jökull Logi Arnarsson en hann söng lagið Queen of Denmark með John Grant.

Í þriðja sæti varð Írena Víglundsdóttir frá Hellu en hún sigraði einnig í símakosningu keppninnar. Írena söng lagið Roxanne með The Police í útgáfu Dilönu. Hún er ekki óvön því að standa í þessum sporum því hún varð í 2. sæti í keppninni í fyrra.

Fimmtán frábær atriði börðust um sigur í keppninni fyrir troðfullu húsi í Iðu og átti dómnefndin úr vöndu að ráða. Dómnefndina skipuðu Þórunn Antonía, Haffi Haff og trymbillinn geðþekki, Palli Sveins.

Ástin sveif yfir vötnum í Iðu en þema keppninnar var Allt fyrir ástina. Kynnir kvöldsins var leikarinn Jóhannes Haukur Kristjánsson.

gunnlaugur_2bjarnas101111gk_779249842.jpg
Umgjörð keppninnar var glæsileg að vanda og stemmningunni á sviðinu m.a. varpað á tvo risaskjái.

gunnlaugur_3bjarnas101111gk_628635317.jpg
Sigurvegarinn flutti lag sitt af mikilli innlifun. sunnlenska.is/Guðmundur Karl