Gunnar og Jósep bestir

Gunnar Guðni Harðarson og Jósep Helgason, meðlimir The Wicked Strangers frá Eyrarbakka, voru valdir besti söngvari og besti trommuleikari Músiktilrauna 2011. Hljómsveitin varð í 3. sæti.

Meðlimir The Wicked Strangers fóru hlaðnir verðlaunum úr húsi og munu m.a. koma fram á Iceland Airwaves í haust.

Auk þeirra Gunnars og Jóseps skipa sveitina þeir Teitur Magnússon, gítar/hljómborð, Einar Th. Skúlason, gítar/raddir og Þorsteinn Ólason, bassi/raddir. Hljómsveitin hefur aðeins verið starfandi í örfáa mánuði en hún spilar „stanslaust þróunarrokk“ svo vitnað sé í þá sjálfa.

Úrslitakvöldið fór fram í kvöld í Íslensku óperunni og kepptu ellefu hljómsveitir til úrslita. Þar á meðal var önnur sunnlensk sveit, My Final Warning frá Selfossi.

Hljómsveitin Súr frá Vestmannaeyjum varð í 2. sæti og Samaris frá Reykjavík sigraði.

Fyrri greinSigurmark á lokasekúndunum
Næsta greinVélarvana á Þingvallavatni