Glundroði komst áfram

Hljómsveitin Glundroði frá Selfossi var önnur tveggja hljómsveita sem komst áfram í úrslit Músiktilrauna þegar fyrsta undankvöldið fór fram í Austurbæ í kvöld.

Salurinn kaus Glundroða áfram en dómnefndin valdi hljómsveitina Þoku.

Meðlimir Glundroða eru ekki ókunnir Músiktilraunum því þeir koma m.a. úr hljómsveitunum The Assassin of a Beautiful Brunette og The Wicked Strangers sem báðar hafa átt góðu gengi að fagna í keppninni á undanförnum árum.

Glundroða skipa þeir Alexander Freyr Olgeirsson, Anton Guðjónsson, Skúli Gíslason, Gunnar Guðni Harðarson og Aron Geir Ottóson. Glundroði spilar folk/rock tónlist. Með gleði og von í hjarta fljúga þeir stefnulaust, eins og lauf í vindi.

Keppni heldur áfram á laugardags- og sunnudagskvöld en fjórða og síðasta undankvöldið er á mánudagskvöld. Sex sunnlenskar hljómsveitir taka þátt í Músiktilraunum í ár.